Mikill hiti var í dómsal í héraðsdómi í dag þegar þingfesting, fyrirtaka og málflutningur fór fram vegna kröfu Arion banka um að Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóri WOW air, myndi víkja sem skiptastjóri búsins vegna vanhæfis. Sakaði Ólafur Eiríksson, lögmaður Arion banka, Svein um að hafa vegið gróflega að bankanum í öðru dómsmáli og farið langt út fyrir það sem eðlilegt mætti telja í störfum fyrir skjólstæðing sinn. Svaraði Sveinn Andri Ólafi og sagði engin takmörk vera fyrir því hvers konar þvæla væri borin fyrir dómstóla og að málflutningur Ólafs væri einhverskonar hliðarraunveruleiki þar sem hvítt væri svart.
Ólafur byggði kröfu Arion á því að Sveinn Andri hefði beitt sér með óeðlilegum hætti ímálaferlum Sunshine press og Datacell gegn Valitor, en þar er farið fram á 16 milljarða í bætur eftir að Valitor lokaði greiðslugátt sem var til stuðnings Wikileaks. Vísaði hann til þess að Sveinn Andri hafi bæði farið fram á að Valitor yrði tekið til gjaldþrotaskipta og síðar að eignir yrðu kyrrsettar vegna kröfunnar. Dómstólar hafi hins vegar ekki fallist á það og síðar hafi Sveinn Andri sent bréf til FME, fjármálaráðuneytisins og íslensku og sænsku kauphallarinnar í tengslum við skráningu Arion banka á hlutabréfamarkað. Þar hafi hann komið fram í eigin nafni en ekki skjólstæðinga sinna og sagt að gögn vantaði í skráningalýsingu bankans.
Sagði Ólafur að þær ásakanir sem Sveinn Andri hafi sett fram hafi varðað bæði sektum og fangelsi og tilgangurinn hafi verið að stöðva sölu bankans. Sagði hann Arion banka telja einsýnt að Sveinn Andri hafi þarna farið langt útfyrir það sem eðlilegt mætti telja í störfum sínum fyrir skjólstæðing og þar með væri hægt að draga hæfi hans í efa varðandi skiptabú WOW air, þar sem Arion banki væri stór kröfuhafi.
Ólafur sagði að málskostnaður Sveins Andra vegna máls Datacell og Sunshine press væri nú á bilinu 73 milljónir upp í 624 milljónir. Þá spurði hann um það hvort Sveinn Andri ætti kröfu á hendur Sunshine press, en það væri þá krafa vegna mögulegs ávinnings af málaferlunum. Sagði Ólafur slíka tengingu bannaða í flestum löndum í kringum okkur. Bað hann dómara um að óska eftir upplýsingum um þessi mál frá Sveini Andra.
Ólafur vísaði einnig í vinnu Sveins Andra sem skiptastjóra þrotabús EK1923, en fram hefur komið gagnrýni kröfuhafa búsins á hendur Sveini Andra fyrir mikinn kostnað í tengslum við þau skipti. Sagði hann það vera dæmi um óhóflegt tímagjald og óhóflegan tímafjölda, auk þess sem hann gerði að því skóna að aðilar tengdir Sveini Andra hefðu fengið háar greiðslur frá búinu. „Við höfum áhyggjur á að svipað komi upp ef hann er skiptastjóri WOW air,“ sagði Ólafur.
Sveinn Andri hafnaði öllum ásköunum Ólafs og Arion banka og sagði að hann hefði í fyrsta lagi engin tengsl við stjórn eða stjórnarmeðlimi WOW air sem gætu valdið vanhæfi. Tiltók hann reyndar þau tengsl sem væru til staðar. „Ég fer stundum í spinning með Skúla [Mogensen],“ sagði hann og bætti við að hann hefði verið í pallaleikfimi með Helgu Hlín Hákonardóttur, sem sat í stjórn WOW air. Þá hafi væri einn stjórnarmaður barnsmóðir félaga síns. „Ekkert meir,“ sagði Sveinn Andri um möguleg tengsl.
Varðandi tengingu við Arion banka sagðist hann jú vinna að málinu Sunshine press gegn Valitor þar sem Valitor væri dótturdótturfélag Arion banka. Hann væri hins vegar ekki persónulega aðili að málinu. Þá væri hann ekki í viðskiptum við Arion banka, þó hann hefði átt viðskipti við gamla Búnaðarbankann.
Sveinn Andri svaraði ásökun Ólafs um meint vanhæfi vegna bréfaskriftanna til FME. Sagði hann að bréfin hafi átt fyllilega rétt á sér þar sem ekki hafi verið gerð grein fyrir kröfunni og mögulegum afleiðingum í ársreikningum Valitor. Þegar fyrirtækið væri í söluferli gæti það haft áhrif á mögulegar heimtur af kröfunni. Þá væri kyrrsetningarbeiðnin ekki fráleitari en svo að Arion banki hafi þurft að leggja Valitor til 750 milljónir í nýtt hlutafé vegna slæmrar eiginfjárstöðu Valitor.
Sagði Sveinn Andri kannski fylgja málum fast eftir, en að hann hafi unnið mörg málanna fyrir dómstólum. Þannig hafi dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að greiðslugáttinni til Sunshine press hafi verið lokað ólöglega og beiðnum Arion banka um nýtt mat hafi verið hafnað. Sagði hann að reka hefði þurft málið af talsverðu harðfylgni til að það kæmist á það stig sem það er í dag, en búast má við dómi í skaðabótamálinu á næstunni.
Sveinn Andri svaraði einnig ásökunum um hátt tímakaup og sagði gjaldskrá sína vera afrit af gjaldskrá Lögfræðistofu Reykjavíkur, þar sem hann vann áður. Hann benti jafnframt á að hann og Þorsteinn Einarsson, hinn skiptastjóri WOW air, hefðu skilað inn yfirlýsingu til dómstjóra þess efnis að Þorsteinn myndi alfarið sjá um málefni Arion banka í tengslum við uppgjör búsins. Sagði Sveinn Andri að óhjákvæmilega væru alltaf einhver atriði sem gætu komið upp. Þannig hefði einn kröfuhafi verið viðskiptavinur á stofunni sem Þorsteinn er hjá og því hafi Sveinn Andri tekið öll mál þess kröfuhafa. Einnig sé Sveinn Andri lögmaður flugfreyju sem muni líklega lýsa kröfum í búið. Sagðist hann auðvitað vera vanhæfur til að taka hennar mál. Það gerði hann hins vegar ekki vanhæfan skiptastjóra þegar þeir gætu skipt með sér verkum.
Sveini Andra var orðið nokkuð heitt í hamsi þegar þarna var komið við sögu og sagði að það sem skyni í gegn í þessu máli væri persónuleg óvild Ólafs í sinn garð „vegna þess að ég leyfi mér að sinna mínum málum vel og ganga fram með hörku.“ Vísaði hann meðal annars til þess að sá lögmaður sem hefði unnið mest gegn sér í tengslum við skipti á EK1923 væri samstarfsmaður Ólafs á Logos.
Í andsvörum Ólafs ítrekaði hann aftur að Sveinn hefði sent bréf til FME í sínu eigin nafni og að Sveinn Andri hefði gengið fram og sakað Arion um óheiðarleika og lögbrot. Sagðist hann furðu lostinn að heyra hann svo segja þetta allt vegna persónulegrar óvildar. „Ekki bjóðandi að koma fram með þessar ávirðingar,“ sagði Ólafur. Þá ítrekaði hann spurningu sína hvort Sveinn Andri ætti kröfu á Sunshine press í tengslum við málarekstur þess máls.
Sveinn Andri tók næst til andsvara. „Í alvöru, er lögmaðurinn ekki alveg vel læs?“ Því næst rifjaði hann upp að fyrra bréfið sem hann hefði sent FME væri sérstaklega tekið fram að hann væri lögmaður Sunshine press og Datacell og gætti hagsmuna þeirra. Í næsta bréfi væri vísað í fyrra bréfið og tekið fram að hann væri að senda það fyrir hönd Datacell og Sunshine press. Sagðist hann hafa orðið þess var undanfarið að það væri nýmóðins í rekstri dómsmála að setja alls konar vitleysu fram. „Eru engin takmörk fyrir hvers konar þvæla er sett fyrir dómstóla,“ spurði hann og sagði framsetningu Ólafs vera einhvern hliðarveruleika þar sem hvítt væri svart og svart væri hvítt.
Bað Símon Sigvaldason dómstjóri Svein Andra um að gæta orða sinna á þessum tímapunkti. Sagðist Sveinn Andri biðjast afsökunar ef hann hefði æst sig. „Ég tel samt tilefni hafa verið til þess,“ sagði hann og bætti við að menn yrðu að halda sig við staðreyndir þegar þær væru skrifaðar á blað, að ekki væri hægt að fullyrða beint út í bláinn og vísaði orðum sínum að Ólafi.
Úrskurður í málinu um hvort Sveinn Andri sé vanhæfur sem skiptastjóri mun vera kveðinn upp á föstudaginn klukkan 14:00 í Héraðsdómi Reykjavíkur.