Torsótt gæti reynst að fá undanþágur samþykktar frá innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins í sameiginlegu EES-nefndinni hafni Alþingi því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna innleiðingarinnar.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bréfi sem þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður sendu Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í dag að ósk ráðherrans þar sem áréttuð eru ákveðin atriði vegna umfjöllunar Alþingis um málið. Þeir Stefán og Friðrik rituðu álitsgerð um þriðja orkupakkann fyrir utanríkisráðuneytið.
Vísað er til þeirrar leiðar sem þeir Stefán og Friðrik lögðu til að hægt væri að fara vegna málsins. Það er að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara sem þýddi að málið færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt væri að óska eftir undanþágum vegna þess. Þeir segja að þeirri leið fylgi sá kostur að henni fylgdi ekki lögfræðileg óvissa.
Hins vegar hafi ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu EES-samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Sú leið sem ríkisstjórnin hefði kosið að fara, og þeir Stefán og Friðrik segja mögulega lausn í álitsgerð sinni, felst í því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans en innleiða ekki þann hluta hans sem skiptar skoðanir eru um hvort standist stjórnarskrána.
Þeir Stefán og Friðrik segja engan vafa á því að þessi leið standist stjórnarskrána sem skipti mestu máli að þeirra mati. Ágallar þessarar leiðar lúti að því hvort innleiðing umræddrar löggjafar með þessum hætti gæti orðið tilefni athugunar af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Þrátt fyrir að umrædd leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa telji þeir mjög ósennilegt að ESA geri athugasemdir.
Fyrir því nefna þeir þær ástæður að umrædd löggjöf hafi þá verið tekin upp og innleidd og að ákvæði hennar varðandi raforkutengingar á milli landa komi ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á sem ekki verði gert nema með samþykki Alþingis. Valdheimildir ACER (ESA) nái ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verði lagður og þær muni aðeins taka gildi þegar slík tenging er til staðar.
Ekki muni reyna á umrædd ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað Evrópusambandsins með sæstreng og því geti enginn byggt rétt sinn á þeim. Þá dragi yfirlýsing orkumálastjóra sambandsins, um að umræddar reglur gildi ekki og hafi enga raunhæfa þýðingu hér á landi í ljósi þess að Ísland er ekki tengt innri orkumarkaði þess, mjög úr líkunum á því að ESA geri athugasemdir við innleiðinguna.
Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu hafi hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í þessu samhengi.