Rafræn atkvæðagreiðsla félagsmanna VR um nýgerða kjarasamninga félagsins við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda er hafin. Skrifað var undir samninginn í húsnæði ríkissáttasemjara eftir maraþonfundarhöld í síðustu viku, og voru samningarnir kynntir félagsmönnum VR á mánudagskvöld.
Um 35 þúsund manns eru á kjörskrá hjá VR og lýkur atkvæðagreiðslu í hádeginu á mánudag.
Atkvæðagreiðsla félagsmanna Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur, sem voru í samfloti með VR, vegna kjarasamninganna hefst síðan í hádeginu á morgun, föstudag, og stendur yfir til 23. apríl.
Atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Landssambands íslenskra verzlunarmanna hófst kl. 9 í morgun.