Fá bætur vegna misréttis og ranglætis

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Fötluðum börnum, sem vistuð voru á heimilum sem voru sambærileg við Kópavogshæli, verða greiddar sanngirnisbætur. Haft er eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á fréttavef RÚV að málið snúist um að bæta fólki misrétti og ranglæti sem það hafi orðið fyrir af hálfu hins opinbera. Kostnaður vegna málsins er óljós.

Vísað er í þessu sambandi til svarbréfi Katrínar til Þroskahjálpar en samtökin hafa lýst miklum vonbrigðum með að stjórnvöld hafi ekki lýst yfir vilja til þess að rannsaka öll vistheimili hvar bæði fötluð börn og fatlaðir fullorðnir einstaklingar dvöldu líkt og þau hafi verið hvött til í skýrslu um Kópavogshælið. Sendu samtökin bréf til forsætisráðherra í þessum efnum í janúar og hefur ráðherrann sem fyrr segir svarað þeim.

Fram kemur í svari Katrínar að í undirbúningi sé lagafrumvarp um sanngirnisbætur til fatlaðra barna sem vistuð hafi verið á heimilum á vegum hins opinbera. Katrín segir í samtali við Ríkisútvarpið að frumvarpið muni þó eingöngu ná til fatlaðra barna en hún segist ekki vilja útiloka að í framtíðinni verði einnig horft til þeirra sem voru vistaðir á slíkum heimilum sem fullorðnir einstaklingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert