Fjalla um Secret Solstice í byrjun maí

Tónleikagestir á Secret Solstice í fyrra.
Tónleikagestir á Secret Solstice í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Mál tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice var ekki tekið fyrir í borgarráði í dag og verður því ekki fjallað um það fyrr en eftir páskafrí en næsti fundur borgarráðs er fimmtudaginn 2. maí.

Fundur borgarráðs fellur niður næstu tvo fimmtudaga en það eru skírdagur og sumardagurinn fyrsti.

Nokk­ur óvissa hef­ur verið um mál Secret Solstice-hátíðar­inn­ar, sem hald­in hef­ur verið í Laug­ar­dal und­an­far­in ár. Nýir rekstr­araðilar, Live Events ehf., koma nú að rekstri hátíðar­inn­ar, en fyrri rekstr­araðilar hafa verið sakaðir um vanefnd­ir á gerðum samn­ing­um.

Hátíðin skuld­ar Reykja­vík­ur­borg um tíu millj­ón­ir króna vegna hátíðar­inn­ar sem var hald­in síðasta sum­ar, auk þess sem umboðsaðili banda­rísku þung­arokks­sveit­ar­inn­ar Slayer hef­ur stefnt hátíðinni vegna tæp­lega sex­tán millj­óna króna skuld­ar.

For­svars­menn Live Events hafa þó sagt að hátíðin verði hald­in, með eða án stuðnings borg­ar­inn­ar.

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir, formaður borg­ar­ráðs, sagði í sam­tali við mbl.is á mánudag að leyfi fyr­ir Secret Solstice hafi verið gefið út árið 2015 til fimm ára. Nýr samn­ing­ur er þó gerður fyr­ir hverja hátíð með þeim skil­yrðum að for­svars­menn henn­ar hafi m.a. staðið skil á greiðslum.

Elliði Vign­is­son, bæj­ar­stjóri Ölfuss, fundaði í gær með for­svars­mönn­um Secret Solstice-tón­list­ar­hátíðar­inn­ar og seg­ir á Face­book-síðu sinni að hátíðar­hald­ar­ar horfi nú meðal ann­ars til sveit­ar­fé­lags­ins Ölfuss með mögu­legt sam­starf í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert