Mál tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice var ekki tekið fyrir í borgarráði í dag og verður því ekki fjallað um það fyrr en eftir páskafrí en næsti fundur borgarráðs er fimmtudaginn 2. maí.
Fundur borgarráðs fellur niður næstu tvo fimmtudaga en það eru skírdagur og sumardagurinn fyrsti.
Nokkur óvissa hefur verið um mál Secret Solstice-hátíðarinnar, sem haldin hefur verið í Laugardal undanfarin ár. Nýir rekstraraðilar, Live Events ehf., koma nú að rekstri hátíðarinnar, en fyrri rekstraraðilar hafa verið sakaðir um vanefndir á gerðum samningum.
Hátíðin skuldar Reykjavíkurborg um tíu milljónir króna vegna hátíðarinnar sem var haldin síðasta sumar, auk þess sem umboðsaðili bandarísku þungarokkssveitarinnar Slayer hefur stefnt hátíðinni vegna tæplega sextán milljóna króna skuldar.
Forsvarsmenn Live Events hafa þó sagt að hátíðin verði haldin, með eða án stuðnings borgarinnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði í samtali við mbl.is á mánudag að leyfi fyrir Secret Solstice hafi verið gefið út árið 2015 til fimm ára. Nýr samningur er þó gerður fyrir hverja hátíð með þeim skilyrðum að forsvarsmenn hennar hafi m.a. staðið skil á greiðslum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, fundaði í gær með forsvarsmönnum Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar og segir á Facebook-síðu sinni að hátíðarhaldarar horfi nú meðal annars til sveitarfélagsins Ölfuss með mögulegt samstarf í huga.