Uppgangurinn ómögulegur án innflytjenda

Hallfríður segir vinnuaflsskort og efnahagsuppsveiflu helsta ástæða alþjóðlegra fólksflutninga til …
Hallfríður segir vinnuaflsskort og efnahagsuppsveiflu helsta ástæða alþjóðlegra fólksflutninga til landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sá uppgangur sem orðið hefur í ferðaþjónustu á Íslandi undanfarin ár hefði aldrei getað orðið að veruleika ef ekki væri fyrir innflytjendur, en innflytjendum á vinnumarkaði hefur fjölgað hratt á síðustu árum og töldu þeir nærri 40 þúsund árið 2018.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar Hallfríðar Þórarinsdóttur á innflytjendum í ferðaþjónustu, en hún kynnti þær í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í hádeginu.

Innflytjendur 32% vinnuafls í ferðaþjónustu og 75% á hótelum

Hallfríður segir vinnuaflsskort og efnahagsuppsveiflu helsta ástæða alþjóðlegra fólksflutninga til landsins. Fjöldi innflytjenda hafi aukist jafnt og þétt með aukningu ferðamanna undanfarin ár og séu nú 32% alls vinnuafls í íslenskri ferðaþjónustu. 

Íslendingar eru einungis 24% starfsfólks á íslenskum hótelum.
Íslendingar eru einungis 24% starfsfólks á íslenskum hótelum. Mirra

Það sem kom Hallfríði hvað mest á óvart við framkvæmd rannsóknarinnar var hve lítil áhersla er lögð á starfsfólk í stefnumótun og umfjöllun um ferðaþjónustu. Arðsemi og náttúruvernd séu sett í fyrsta sæti á meðan starfsfólkið mæti afgangi.

Ferðaþjónustan sé mannaflsfrek atvinnugrein sem kalli einkum á ósérhæft starfsfólk, oftar en ekki í neðstu þrepum launastigans, þrátt fyrir að starfsfólkið sem þeim sinni sé oft hámenntað í öðrum greinum. Þá bjóði störfin oftar en ekki upp á takmarkaða starfsþróun.

Hallfríður Þórarinsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á Þjóðminjasafninu í dag.
Hallfríður Þórarinsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á Þjóðminjasafninu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að ferðaþjónustan eigi sér ýmsar skuggahliðar, svo sem glæpastarfsemi í formi svartrar atvinnustarfsemi, undirboða og mansals líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu, séu innflytjendur almennt ánægðir með flatan valdastrúktúr og vinaleg samskipti undir- og yfirmanna, sem og trygga stöðu á vinnumarkaði.

Hallfríður segir þó ljóst að ef ekki verður tekið á viðvarandi brotastarfsemi í ferðaþjónustu sé orðspori íslands sem áfangastaðar stefnt í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert