„Þetta er í fyrsta skipti sem ég útbý og standset húsnæði sem er vel til þess fallið að halda sýningar. Þetta er fyrst og fremst vinnustofa mín, en húsnæðið er þess eðlis að ég á auðvelt með að breyta því í glæsilegan sýningarsal. Þetta hefur verið draumur hjá mér lengi.“
Þetta segir Kristján Baldvinsson, sem opnar myndlistargalleríið Gallerí GAFL – Listhús við Lækinn á morgun, föstudag, í Hafnarfirði. Til greina kemur að leigja út salinn til sýninga á verkum annarra listamanna, ef áhugi er fyrir því.
Á sama tíma og Kristján opnar galleríið ætlar hann að opna þar sýningu á eigin verkum, en hann er að mestu leyti sjálfmenntaður myndlistarmaður og hefur málað í rúma fjóra áratugi. Hann segist muna nákvæmlega hvenær myndlistaráhugi hans vaknaði.
„Það var 20. nóvember 1973 þegar ég var nýorðinn tvítugur og var á göngu í Hafnarstræti í Reykjavík. Þar sá ég málverk í búðarglugga sem talaði mjög sterkt til mín. Ég mannaði mig upp í að fara inn og spurðist fyrir um málverkið. Þá kom í ljós að Kristján Davíðsson var með málverkasýningu í versluninni. Ég beið ekki boðanna, fór og keypti mér olíumálningu, striga og pensla og byrjaði að mála þann sama dag. Og hef gert það síðan. Ég er þakklátur fyrir að þarna kviknaði óslökkvandi þörf hjá mér til að mála.“
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segist Kristján vera mikill áhugamaður um myndlist almennt, innlenda og erlenda.