Fjöldinn allur af kattaeigendum leitar á náðir Kattholts fyrir pössun um páskana og nú ber svo við að uppbókað er á Hótel Kattholti í Árbænum sem oftar þegar hátíð fer að höndum. Nú var uppbókað í kisupössun um svipað leyti og venjulega. Og nokkrir eru á biðlista, sem vonast er til að geta komið fyrir þegar þar að kemur.
„Þetta er mest akkúrat núna, þegar fólk er á ferðalögum,“ segir Halldóra Snorradóttir, rekstrarstjóri Kattholts. Hún segir að fólk verði að bóka með mánaðarfyrirvara til þess að ná plássi yfir háannatímann, aðsóknin sé mikil yfir páska, sumar og jól. „Best er að bóka gistingu um leið og fólk er búið að ganga frá flugfarinu,“ segir Halldóra og bætir því við að í ár hafi nokkuð verið um breytingar á dagsetningum hjá gestum, því eigendur þeirra þurftu að breyta flugmiðum sínum í kjölfar falls WOW air.
Ekki stendur til að stækka Hótel Kattholt enda framboð alla jafna í takt við eftirspurn árið um kring, fyrir utan þessa tíma. Sömuleiðis segir Halldóra að gott sé að halda fjöldanum innan ákveðinna marka, svo dýrunum líði áfram vel, sem sé aðalmarkmiðið. Þá sé hægt að leita til annarra hótela, t.d. í Garðabæ og á Suðurnesjum, að því er fram kemur í umfjöllun um kattapössun í Morgunblaðinu í dag.