Vesturvallagata lokuð til frambúðar

Ekki verður opnað aftur fyrir umferð um Vesturvallagötu á milli …
Ekki verður opnað aftur fyrir umferð um Vesturvallagötu á milli Hringbrautar og Ásvallagötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki verður opnað aftur fyrir umferð um Vesturvallagötu á milli Hringbrautar og Ásvallagötu, en lokað var fyrir umferð þegar uppbygging við Vesturbæjarskóla hófst árið 2015. Nú hefur stækkun skólalóðarinnar til suðvesturs verið samþykkt og verður Vesturvallagata hluti af lóðinni.

Fyrsta skóflustungan að viðbyggingu Vesturbæjarskóla var tekin 12. ágúst 2015 og nú í janúar var búið að afhenda allt nema svalir.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að lóð skólans verði endurgerð í sumar. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við fyrsta áfanga endurgerðar skólalóðar Vesturbæjarskóla. Kostnaður við verkið er áætlaður 120 milljónir króna. Framkvæmdir eru áætlaðar á tímabilinu maí til september.

Skipulags- og samgönguráð samþykkti 19. september 2018 að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar við Sólvallagötu 67, lóð Vesturbæjarskóla, og borgarráð samþykkti slíkt hið sama 4. október. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar samþykkti breytinguna á deiliskipulagi 7. desember 2018.

Áætlað er að framkvæmdir við annan áfanga verði sumarið 2020 en þá verður komið fyrir gervigrasi þar sem nú er svokallað flutningshús við Hringbraut 116 – 118. Áætlun gerir ráð fyrir að sá áfangi kosti 75 milljónir króna.

Vesturvallagata á milli Hringbrautar og Ásvallagötu verður hluti skólalóðarinnar.
Vesturvallagata á milli Hringbrautar og Ásvallagötu verður hluti skólalóðarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert