Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að veita sextíu milljónum króna til Bergsins Headspace, sem er úrræði fyrir ungt fólk.
Þetta var tilkynnt á málþingi Geðhjálpar og Bergsins sem fer fram á Grand hóteli.
Þar var skrifað undir viljayfirlýsingu fimm ráðuneyta um að koma að fjármögnun Bergsins. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skrifuðu undir hana.
Í máli Ásmundar Einars kom fram að ríkisstjórnin standi heilshugar á bak við Bergið og vilji „tengja saman stjórnsýsluna við það öfluga starf sem hér er að fara af stað“.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að um tilraunaverkefni sé að ræða. Veittar verða 30 milljónir króna á ári í tvö ár í verkefnið.
Bergið er svokölluð lágþröskuldaþjónusta sem byggir á Headspace sem er ástralskt úrræði fyrir ungt fólk. Slíkum miðstöðvum hefur meðal annars verið komið upp í Danmörku. Hugmyndafræðin þar byggist á því að ungt fólk á aldrinum 12 - 25 ára geti gengið að því sem vísu að eiga kost á því að leita til einhvers, sama hversu stór eða lítil vandamálin eru.
Bergið Headspace verður til húsa á Suðurgötu 10 í Reykjavík. Um er að ræða þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk þar sem í boði verður einstaklings- og áfallamiðuð þjónusta.