Kristján H. Johannessen
Dómsmálaráðuneytið hefur sent Reykjavíkurborg bréf vegna fyrirhugaðrar byggingar Lindarvatns ehf. á hóteli á svokölluðum Landsímareit og þar á meðal á svæði sem áður var kirkjugarður, Víkurgarður.
Er þar m.a. vísað til 33. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, og bent á að niðurlagðan kirkjugarð megi ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts. Ekki megi þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki. Þó geti dómsmálaráðuneytið veitt undanþágu frá þessu, að fengnu samþykki kirkjugarðaráðs, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Bendir ráðuneytið á að því hafi vorið 2018 borist beiðni Veitna ohf. þar sem óskað var eftir heimild ráðuneytisins til þess að mega grafa fyrir veitulögnum á svæði Víkurgarðs. „Eftir að hafa aflað afstöðu kirkjugarðaráðs féllst ráðuneytið á beiðnina. Aðrar beiðnir um leyfi fyrir jarðraski eða mannvirkjagerð á svæðinu sem tilheyrir Víkurgarði hafa ekki borist ráðuneytinu,“ segir í bréfi.