Gjaldþrot flugfélagsins WOW air getur haft mikil og alvarleg áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar. Þetta er mat áhættumatsdeildar fjármálaskrifstofu borgarinnar, en minnisblað um möguleg áhrif af gjaldþroti WOW air var lagt fram á fundi borgarráðs í gær.
Segir í minnisblaðinu að sjóðstaða borgarsjóðs sé sterk, en hún fari þó hratt lækkandi í sviðsmyndinni sem haldist þó jákvæð í um það bil eitt og hálft ár eftir gjaldþrot flugfélagsins. „Þessi lækkandi sjóðstaða gæti gefið tilefni til aðhaldsaðgerða borgarinnar auk endurskoðunar á fjárfestingaráætlun,“ að því er segir i minnisblaðinu.
Sviðsmynd áhættumatsdeildar tekur m.a. mið af niðurstöðum greiningar starfshóps ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra um þetta mál og nýlegum greiningum Reykjavik Economics og Arion banka á fall flugfélagsins, en deildir skoðar í sviðsmynd sinni áhrifin af falli WOW air á helstu áhættuþætti á rekstur og sjóðstreymi A-hluta fjárhagsáætlunar borgarinnar. Er þar m.a. gert ráð fyrir breyttum forsendum vegna samdráttar í ferðaþjónustu.
Í sviðsmynd sem miðar við versta mögulega tilvik greininganna og þar sem metin eru afleidd áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar yfir 5 ára áætlunartímabilið 2019-2023, er gert ráð fyrir að talsverður samdráttur verði strax í ár og að verðbólga aukist fyrstu tvö árin miðað við forsendur fjárhagsáætlunar, en nálgist síðan markmið Seðlabanka Íslands seinni hluta fimm ára áætlunartímabilsins. Gert er ráð fyrir að vinnumagn minnki um 1,5% fyrsta árið en taki svo að aukast að nýju og nálgist svo langtímameðaltal síðustu tvö árin.
Þá eru áhrifin á Orkuveitu Reykjavíkur sögð geta orðið töluverð, bæði í gegnum verðbólgu og gengisveikingu, en OR er með mikið af lánum sem bera eigendaábyrgð og sem eru bæði í verðtryggðum krónum og í erlendri mynt.
Lán OR með eigendaábyrgð námu í lok síðasta árs 94,7 milljörðum kóna og þar af námu erlend lán 80,1 milljarði króna, en verðtryggð lán í krónum 14,6 milljörðum. „Því ber að hafa í huga að aukin verðbólga og veiking gengis hefur bein áhrif á skuldbindingu Reykjavíkurborgar vegna OR og afborganir og vaxtagreiðslur félagsins af þeim skuldbindingum,“ segir í minnisblaðinu.
Sviðsmyndin geri því ráð fyrir lægri arðgreiðslum frá OR fyrstu tvö árin af tímabilinu.
Þá muni fækkun ferðamanna, aukið framboði á húsnæði og minnkandi eftirspurn vegna hás fasteignaverðs leiða til þess að íbúðaverð hækki mun minna en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun og eru áhrifin á verð á atvinnuhúsnæði sögð verða mun meiri, enda hafi samdráttur í ferðaþjónustu bein áhrif á hótel- og gistirými, veitingastaði og verslunarhúsnæði.
Fjármálaskrifstofan ítrekar þó í minnisblaði sínu að sviðsmyndin sé háð mikilli óvissu sem og mat fjármálaskrifstofu á afleiddum áhrifum af þeim á rekstur Reykjavíkurborgar. Óvíst sé hvort og hversu hratt aðrir aðilar muni koma inn á flugmarkað og fylla í skarð WOW air, sem og í hvaða mæli aðrar atvinnugreinar geti tekið við því vinnuafli sem tapast í ferðaþjónustu.
Auk þess séu taldar nokkrar líkur á því að Seðlabankinn grípi í taumana og lækki vexti og örvi þar með hagvöxt.
í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er fjármálaskrifstofunni þakkað fyrir vandaða samantekt sem gefi „nauðsynlega innsýn inn í möguleg áhrif gjaldþrots WOW á fjármál Reykjavíkurborgar“. Þá sé minnisblaðið „fóður í áherslur og viðbrögð borgarinnar í kjölfar gjaldþrotsins“.
Flestir þeir ferðamenn sem komi til Íslands komi til Reykjavíkur og því geri flest ferðaþjónustufyrirtæki út frá borginni „Þess vegna hefur borgin gríðarlega hagsmuni af því að ferðamenn haldi áfram að koma til Íslands svo ferðamennska haldi áfram að blómstra,“ segir í bókuninni.