Ísland á meðal stofnenda mannréttindasjóðs Alþjóðabankans

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr mannréttindasjóður á vegum Alþjóðabankans hefur verið settur á fót og er Ísland er á meðal stofnenda sjóðsins. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á gildi mannréttinda í þróunarsamstarfi í ávarpi sem hann flutti við stofnun nýja sjóðsins  í Washington í kvöld.

Frá þessu er greint á vefsíðu Stjórnarráðsins en vorfundir Alþjóðabankans standa nú yfir.

Þar segir enn fremur að mannréttindamál séu meðal áherslna Íslands í tvíhliða samstarfi við Alþjóðabankann og að samstarfið á því sviði nái aftur til ársins 2006 þegar Ísland hóf að veita framlög til Norræna mannréttindasjóðsins (e. Nordic Trust Fund).

Fyrr á þessu ári var ákveðið að stofna nýjan mannréttindasjóð (e. Human Rights and Development Trust Fund, HRDTF) og endurspeglar nafn sjóðsins nú betur starf hans og hlutverk. Ísland er stofnaðili að sjóðnum, auk Noregs, Finnlands og HOllands.

Sjóðnum er ætlað að stuðla að öflun þekkingar, fræðslu og verkefnainnleiðingar á sviði mannréttinda þar sem áhersla er lögð á tengsl málaflokksins við starfsemi og rekstur bankans, meðal annars í óstöðugum ríkjum og á átakasvæðum.

„Það er okkur mikil og einlæg ánægja en jafnframt skylda að taka þátt í stofnun þessa nýja sjóðs. Við erum stolt af því að vera á meðal stofnenda hans,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu á stofnviðburði nýja mannréttindasjóðsins í Washington í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert