Búið er að aflýsa öllum brottförum flugvéla Icelandair sem áttu að fara síðdegis frá Keflavíkurflugvelli. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Búið er að aflýsa öllu flugi vegna veðurs,“ segir Ásdís. Um er að ræða 13 flugferðir til Bandaríkjanna og Kanada og eina flugferð til Kaupmannahafnar.
Hún bætir því við að verið sé að koma fólki frá borði úr síðustu vélinni á Keflavíkurflugvelli en farþegar höfðu setið fastir í vélum sem lentu um miðjan daginn vegna vindhraða.
Isavia þurfti að taka allar landgöngubrýr úr notkun klukkan tvö í dag en Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að vindhraði yrði að vera undir 50 hnútum, jafngildi um 25 m/s, til að landgöngubrýr væru í notkun.
Icelandair notaði því stigabíl til að hleypa fólki frá borði og tafði það flutning fólks frá borði.
Ásdís segir að Icelandair sé í stöðugum samskiptum við farþega og unnið sé að því að leysa úr málinu eins og vel og hægt er. Spurð hvort það þýði að Icelandair þurfi að finna aðra brottfarartíma segir Ásdís að félagið muni finna lausnir og taka stöðuna á morgun.