Alls störfuðu 8.473 starfsmenn við grunnskóla í haust og fjölgaði um 4,2% frá fyrra ári. Þó að nemendur í grunnskólum hafi aldrei verið fleiri en síðasta haust var engu að síður einn starfsmaður á hverja 5,4 nemendur.
Starfsmönnum grunnskóla hefur fjölgað um 39,1% frá hausti 1998 en á sama tíma hefur nemendum fjölgað um 8,2%. Fjölgun starfsfólks má fyrst og fremst rekja til fjölgunar stuðningsaðila nemenda.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, að eftir að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskóla hafi grunnskólakerfið orðið mjög kostnaðarsamt, mönnun hafi blásið út. „Úr varð verkefni sem við stóðum ekki fyllilega undir.“