Þrír úrskurðaðir í farbann

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír erlendir karlmenn sem eru grunaðir um framleiðslu fíkniefna í Árnessýslu hafa verið látnir lausir úr haldi en í staðinn hafa þeir verið úrskurðaðir í farbann til 10. maí.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, staðfestir þetta en vill ekkert tjá sig frekar um rannsókn málsins.

Það var Héraðsdómur Suðurlands sem úrskurðaði mennina í farbann. Mennirnir voru handteknir á tveimur stöðum í Árnessýslu 4. apríl og átti gæsluvarðhald yfir þeim að renna út klukkan 16 í dag.

Uppfært kl. 16:38

Fram kemur í tilkynningu að mennirnir séu frá Litháen, þar af einn á þrítugsaldri og tveir á sextugsaldri. Þeir voru handteknir í tveimur aðskildum sumarhúsum í Árnessýslu grunaðir um stórfellda ræktun kannabis þar.

Lagt var hald á vel á þriðja hundrað fullvaxnar kannabisplöntur og nokkurt magn peninga í íslenskri og erlendri mynt.

Til rannsóknar er stórfelld framleiðsla fíkniefna og peningaþvætti henni tengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka