Varhugavert að fara upp á hálendið

Veðurútlit annað kvöld. Þá getur meðalvindur náð allt að 25 …
Veðurútlit annað kvöld. Þá getur meðalvindur náð allt að 25 m/s. Kort/Veðurstofa Íslands

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, mælir með að þeir sem hyggja á ferðalög milli landshluta skipuleggi sig þannig að þeir verði komnir á áfangastað fyrir kvöldmat í kvöld, eða leggi ekki af stað fyrr en í fyrramálið.

Pálmasunnuhelgin er í huga margra fyrsta ferðahelgi ársins, enda ýmsir sem hugsa sér gott til glóðarinnar að bregða sér á skíði í dymbilvikunni eða hafa það notalegt uppi í sumarbústað.  Gular viðvaranir eru hins vegar í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Suðausturlandinu þessa helgi og ættu ferðalangar því að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum Vegagerðarinnar.

„Það verður mjög hvasst í kvöld og fram á nóttina, síðan lægir og svo bætir aftur hraustlega í, þannig að seinni partinn á morgun og fram á aðfaranótt sunnudags verður langversta veðrið vindlega séð,“ segir Óli Þór.

„Ef það á að fara fyrir Hafnarfjall og Kjalarnes, nú eða Ingólfsfjall eða Eyjafjöllin þá ætti fólk að vera á ferðinni vel fyrir kvöldmat,“ bætir hann við. Það verði orðið vel hvasst strax síðdegis. „Það verður ekkert ófært, en það verður alveg svakalega byljótt í kringum þessi fjöll í þessari vindátt. Síðan verður norðanvert Snæfellsnesið alltaf leiðinlegt í þessum vindáttum líka.“

Fólk skipuleggi ferðalög með veðrið í huga

Óli Þór mælir með að fólk skipuleggi ferðalög sín með þetta í huga og leggi því til að mynda ekki af stað fyrr en í fyrramálið, komist það ekki af stað nógu snemma í dag.

„Það verður samt hvasst allan morgundaginn, en með veðrinu sem kemur hérna inn á milli klukkan 17 og 19 á morgun gæti orðið mjög snúið að fara hérna fyrir fjöllin,“ segir Óli Þór og bætir við: „Það verður almennt leiðindaveður á suðvesturhorni landsins.“ 

Gul viðvörun vegna suðaustanstorms er í gildi á Suðurlandi og miðhálendinu frá því í kvöld og fram á sunnudag, á Faxaflóa og Breiðafjarðarsvæðinu í kvöld og á morgun, á norðanverðu Snæfellsnesinu á morgun og fram á sunnudag og á suðaustanverðu landinu gildir hún fyrir morgundaginn.

Blautt og þrútið á Suðausturlandi

Veðurstofan hefur einnig gefið út gula viðvörun vegna úrkomu  á Suður- og Suðausturlandi á sunnudag. „Apríl er öllu jafna frekar þurr mánuður og þá virkar þetta mjög slæmt í samanburði,“ segir Óli Þór og bætir við að veðrinu megi helst líkja við hraustlega haustlægð og búast megi við að það verði víða orðið blautt og þrútið á Suðausturlandi á sunnudag eftir viðvarandi rigningu. 

Óli Þór bendir á að rigningin verði ekki endilega í sama fasa og vindurinn og þannig geti mesta rigningin til að mynda verið aðeins til hliðar við vindinn. „Þannig að þetta verður í raun aldrei neitt rosalega skemmtilegt, nema kannski hjá þeim sem eru komnir norður yfir Holtavörðuheiði og eru þá í sunnanþey og þurru og flottu veðri.“ 

Veðrið á mbl.is

Snjó tekur hratt upp

Skíðamenn muni hins vegar eflaust sumir hverjir syrgja það hvað snjó tekur hratt upp núna. Allt var snjóhvítt á hálendismyndavélum Vegagerðarinnar í gær, en er í dag orðið flekkótt. „Þessi almennilega hláka er rétt að byrja,“ segir Óli Þór og kveður þetta vera rót úrkomuviðvaranna Veðurstofunnar.

„Það er ekki endilega að magn úrkomunnar sé það mikið, heldur er það líka snjóbráðnunin. Með hlýindunum, vindinum og úrkomunni verður svo ofboðsleg snjóbráð að vatnavextirnir verða miklir,“ útskýrir hann og segir spána fyrir vikið vera samþætta og flókna.

Þó að ekki sé mikill snjór orðinn eftir á láglendinu, má búast við töluverðri bráðnun um um leið og komið er upp í 200-300 metra hæð. „Þegar við erum að fá 7-8 stiga hita jafnvel uppi á hálendi þar sem er víða töluvert af nýsnævi á sá snjór allur eftir að breytast í vatn og koma niður.“ Segir Óli Þór snjóskaflana láta fljótt á sjá við þau skilyrði og það vatn skili sér ofan í fyrsta farveg sem það finnur.

Umtalsverðar líkur á krapa og drullu

Mesta hættan á verulegum vatnavöxtum er á öllu sunnanverðu hálendinu og suður af. „Það verða alveg vatnavextir fyrir norðan, en þar er engin úrkoma,“ segir Óli Þór. Vissulega sé meiri snjór á þeim slóðum, en þar sé líka gamall og harður snjór sem ekki bráðni jafn hratt.

Hann segir varhugavert fyrir ökumenn að fara út af gatnakerfinu eða út á þá vegi sem Vegagerðin merkir ófæra við þessar aðstæður þar sem líkur á krapa og drullu séu umtalsverðar. „Það hlýnar líka það hratt að vegir eru að byrja að þiðna.“

Vel megi búast við þungatakmörkunum á einhverjum vegum á næstunni. „Það gæti bara verið mjög varhugavert að fara eitthvað upp á hálendið,“ bætir Óli Þór við. 

Vegagerðin varar á Twitter-síðu sinni við leysingu með hlýindum um helgina, ekki hvað síst til fjalla. Mikið rignir að auki og verði krapaelgur og hætt við flóðum í vatnsföllum, einkum við Þórsmörk, að Fjallabakki, í Skaftártungu og á Snæfellsnesi.

Óli Þór bendir á að annað kvöld og aðra nótt megi alveg reikna með að meðalvindur geti farið yfir 25 m/s. „Þá er ekki gaman að reyna að hoppa út úr bílnum og reyna að gera eitthvað ef maður situr pikkfastur í drullu eða krapa.“ 

Eftir helgi dregur hins vegar mikið úr vindi og 10 daga spáin bendir til þess að veður verði suðlægt og milt fram yfir páskahelgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert