Höskuldur H. Ólafsson, sem lætur af störfum sem bankastjóri Arion banka um næstu mánaðamót, skilur sáttur við bankann og kveðst ekki hafa fundið fyrir neinum þrýstingi innan bankans til að láta af störfum. Það hafi verið hans ákvörðun, eftir nokkra umhugsun.
Höskuldur tók til starfa sem bankastjóri fyrir níu árum, sumarið 2010. „Ég hef hugleitt þetta í nokkurn tíma. Þegar maður er búinn að halda tíu aðalfundi, á annað hundrað stjórnarfundi, einhverja fjögur hundruð framkvæmdastjórnarfundi, þegar maður er búinn að vera svona lengi, þá hugsar maður bara: Er ekki bara kominn ágætur tími fyrir mig?“ segir hann í samtali við mbl.is. „Þetta er góður tími fyrir bankann og þetta er góður tími fyrir mig.“
Höskuldur segir afsögn sína ekki niðurstöðu af áföllum bankans undanfarið, eins og hagnaði undir væntingum á síðasta ári, falli WOW air og gjaldþrots Primera Air. Þó geti hann ekki sagt að þessi mál hafi engin áhrif haft á sína ákvörðun. „En það eru frekar bara margir hlutir sem safnast saman og verða til þess að þú tekur ákveðna ákvörðun á ákveðnum tímapunkti,“ segir Höskuldur.
„Við höfum verið að takast á við alls konar hluti síðustu ár. Við erum í útlánastarfsemi. Hún er áhættusöm. Langflest af því gengur mjög vel, en annað hefur verið erfitt,“ segir hann. Bankinn sé með 830 milljarða lánabók og höggið í kjölfar gjaldþrots WOW air nemi langt undir 0,5% af því.
Höskuldur skilur sáttur við bankann. „ Ég er mjög stoltur af því verki sem ég og samstarfsfólk mitt í bankanum höfum unnið. Bankinn var náttúrulega óttalegt skar þegar við byrjuðum, með skrýtnu eignarhaldi í eigu þrotabús og ríkisins. Nú er þetta öflugt fyrirtæki, sem hefur tvöfaldað efnahaginn, vaxið og er með forystu á mörgum sviðum. Og þar að auki með eðlilegt eignarhald. Við erum síðan eini stóri bankinn sem er ekki í eigu ríkisins,“ segir Höskuldur.
Höskuldur veit ekki hver verður eftirmaður hans og segir það í höndum stjórnar bankans að ráða ráðum sínum um það. Hann verði sjálfur viðskiptavinur í bankanum og hluthafi og horfi því bjartsýnn fram á veginn. Hann telur gott fyrir bankann að það verði endurnýjun í forystunni. „Ég hugsa að margir verði áhugasamir um að leiða þennan flotta banka,“ segir hann.
Sjálfur veit hann ekki hvað tekur við en fyrst um sinn ætlar hann út á land, þar sem hann ætlar að byggja sér sumarbústað. „Þar ætla ég að láta hendur standa fram úr ermum eins og ég hef gert í bankanum í níu ár en núna í allt öðrum skilningi og það verður bara mjög skemmtilegt,“ segir hann.