„Hefðirðu spurt hóp fólks á síðustu fimm árum hvert það vildi helst ferðast, hefði Ísland fljótlega komið upp í samræðunum. Nýjustu tölur sýna aftur á móti fram á að áhugi á heimsóknum til landsins sé byrjaður að dvína.“ Svo hljóða upphafsorð í grein David Oliver, blaðamanns USA Today, þar sem hann fjallar um stöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna.
„Árið 2018 heimsóttu 2,3 milljónir manna Ísland, 5,5% fleiri en árið á undan, en fjölgunin er mun minni en það sem Íslendingar hafa vanist,“ segir í greininni, en Oliver veltir því upp hvers vegna þessi staða sé komin upp. „Í sannleika sagt veit enginn af hverju, en vinsældir annarra áfangastaða, dýr gisting og fall flugfélagsins WOW air gætu spilað þar inn í.“
Haft er eftir Jennifer Dohm, upplýsingafulltrúa Hotels.com að samkvæmt upplýsingum úr leitarvélum hafi leitarspurnum um Grænland fjölgað um 52% árið 2018, en í tilviki Íslands væri fjölgunin aðeins 17%. Þá er rakið að samkvæmt gögnum Hotels.com fljúgi ferðamenn frá Norður-Ameríku nú í auknum mæli til Írlands, Tyrklands og Japan.
Clive Stacey, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Discover the World, sagði við The Telegraph að hluti skýringarinnar að baki því að hægt hafi á fjölgun ferðamanna hér sé orðrómur um hér á landi sé fjöldi ferðamanna of mikill (e. overcrowded). Það þýði þó ekki að sú sé raunin.
Rakið er að ferðamenn eyði minni fjármunum á Íslandi að því er fram komi í gögnum Alþjóðaferðaþjónusturáðsins. Þannig sé eyðsla á mann nú minni en áður og heimsóknir hingað til lands séu ekki jafn langar og áður. Þá heimsæki ferðamenn helst Reykjavík og megináfangastaði á suðurströnd landsins í stað þess að fara víðar.
Önnur gögn sýna að ferðamenn verji þvert á móti ekki styttri tíma á Íslandi en áður og stór ástæða fyrir því séu ódýrir gistikostir á borð við Airbnb.
Hótel og veitingastaðir á Íslandi bjóða upp á einna hæst verð í Evrópu að því er fram kemur í greininni, en um þetta er vitnað til skýrslu greiningardeildar Arion banka. Hafa verð fyrir gistingu tvöfaldast síðastliðinn áratug samkvæmt skýrslunni sem er frá því í október á síðasta ári. Gögn frá Hotels.com sýna að meðalverð á fimm stjörnu hóteli hafi þó lækkað milli áranna 2017 og 2018, þ.e. úr 550 bandaríkjadölum á nótt í 478 dali.
Oliver tekur með í reikninginn fall íslenska flugfélagsins WOW air í lok mars sl. „Að hluta til hefur hægt á vextinum vegna gjaldþrots WOW air. Þó ber að hafa í huga að önnur flugfélög hafa stokkið til og boðið flug á fyrrverandi flugferðum WOW air,“ segir Rochelle Turner, forstöðumaður greininga hjá Alþjóðaferðaþjónusturáðinu.
Haft er eftir Ingu Hlín Pálsdóttur, framkvæmdastjóra Visit Iceland, að Ísland sé ekki jafn háð innlendum flugfélögum og áður fyrr. „Nú bjóða mun fleiri flugfélög upp á flugferðir til og frá Íslandi samanborið við fyrri ár,“ segir hún.
Turner segir Alþjóðaferðaþjónusturáðið búast við 4,2% vexti á ári á Íslandi næsta áratuginn sem yrði sjálfbærari en hinn mikli vöxtur sem verið hefur. Inga Hlín tekur í sama streng og segir gögn benda til þess að stöðugri vöxtur sé handan við hornið.
„Ísland tókst á við stórt efnahagshrun fyrir áratug síðan og hefur sleikt sárin síðan. Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Bloomberg í október að kreppa í ferðaþjónustunni gæti haft mikil áhrif á efnahaginn á heildina litið, þ.e. eftirspurn eftir vinnuafli, fjárfestingu í hótelum, greiðslustöðu, gengi krónunnar og margt fleira,“ segir í grein USA Today.