Myndi semja við Klíníkina

Margir kjósa að fara erlendis í liðskiptaaðgerð og enn aðrir …
Margir kjósa að fara erlendis í liðskiptaaðgerð og enn aðrir borga aðgerðina sjálfir á Klíníkinni. mbl.is/Ásdís

Það er ys og þys á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi og starfs­fólk á þönum um alla ganga. Leiðin ligg­ur til fund­ar við yf­ir­lækni bæklun­ar­sk­urðdeild­ar­inn­ar, Yngva Ólafs­son, sem gaf blaðamanni stund af sín­um tíma til þess að ræða biðlista í liðskiptaaðgerðir og hvernig mætti leysa þann vanda. Að loknu viðtal­inu gekk blaðamaður út, feg­inn að vera ekki bæklun­ar­sk­urðlækn­ir. Ekki vegna þess að starfið sjálft sé ekki spenn­andi, held­ur fyr­ir þær sak­ir að þess­ir lækn­ar þurfa að horfa fram­an í sárþjáða sjúk­linga og segja þeim að biðin í aðgerð gæti orðið nokkuð löng.

Frá­flæðis­vand­inn eyk­ur á biðlista

Finnst þér biðlista­átakið hafa skilað ár­angri?

„Já, mér finnst það eng­in spurn­ing. Vanda­málið er frá­flæðis­vand­inn og hann er enn til staðar,“ seg­ir Yngvi og út­skýr­ir að eldra fólk og lang­veikt sem leggst inn á spít­al­ann, á ekki aft­ur­kvæmt heim til sín, og hef­ur þá eng­an stað að fara því öldrun­ar­heim­ili og aðrar stofn­an­ir séu full­ar. Því fest­ist sjúk­ling­ur á legu­deild spít­al­ans og tek­ur upp rúm sem ann­ars væri nýtt und­ir sjúk­linga sem þurfa að leggj­ast inn í styttri tíma, eins og eft­ir liðskiptaaðgerðir.

„Fyr­ir ákveðna hópa er ekki pláss neins staðar. Stærsta vanda­málið í þessu öllu er hversu þétt set­inn bekk­ur­inn er af sjúk­ling­um sem eiga ekki heima hér inni á deild­un­um. Þeir koma inn á sjúkra­húsið en kom­ast ekki burt. Við erum að tala um helm­ing til þrjá fjórðu af öllu legu­rými til­tek­inna deilda. Það er ekki verið að tala um eitt eða tvö rúm. Stund­um hrist­ir maður bara höfuðið, hvernig yf­ir­höfuð er hægt að vinna með bráðainn­lagn­ir á lyfja­deild. Það er þétt­set­inn gang­ur af fólki og starfs­fólkið legg­ur á sig ótrú­lega vinnu. Fólk ætti að prófa að starfa við þess­ar aðstæður, þær eru ekki góðar,“ seg­ir Yngvi.

Þannig að frá­flæðis­vand­inn set­ur strik í reikn­ing­inn varðandi gerviliðaaðgerðir?

„Já, þar sem legu­rými og skurðstofu­rými vant­ar. Það var búin til bráðask­urðstofa en nýt­ing­in á henni hef­ur verið inn­an við 50% vegna mann­eklu hjúkr­un­ar­fræðinga og svæf­ing­ar­lækna.“

Yngvi Ólafsson, yfirlæknir á bæklunarskurðdeild LSH segir margar ástæður fyrir …
Yngvi Ólafs­son, yf­ir­lækn­ir á bæklun­ar­sk­urðdeild LSH seg­ir marg­ar ástæður fyr­ir biðlist­um í liðskiptaaðgerðir; m.a. frá­flæðis­vand­inn. Hann tel­ur að létta myndi á biðlist­um ef samið yrði við Klíník­ina í Ármúla, þótt ekki væri nema tíma­bundið. mbl.is/Á​sdís

 Stærsti hluti hefði endað á biðlista

Nú mega sjúk­ling­ar fara til út­landa á grund­velli þriggja mánaða regl­unn­ar. Ertu hlynnt­ur því að fólk fari út í aðgerð?

„Mér finnst sorg­legt að ekki hafi tek­ist að byggja upp þessa starf­semi hér heima. Því það er þrátt fyr­ir allt ódýr­asti kost­ur­inn að þetta sé gert hér inn­an spít­al­ans. En ég skil vel fólk sem fer út, það á rétt á því og það þarf að gera það upp við sjálft sig. Sama gild­ir um Klíník­ina. Sá hluti sem hef­ur farið út og farið á Klíník­ina hefði ann­ars verið á biðlista hér.“

Það hjálp­ar þá til við að stytta biðlist­ana ykk­ar?

„Eng­in spurn­ing. Stærsti hluti þeirra hefði endað á biðlista hjá okk­ur, níu mánaða biðlista eða hvað það er. Og þá væri biðin enn lengri,“ seg­ir hann.

Hvað finnst þér um þá staðreynd að Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands vilji ekki semja við Klíník­ina vegna liðskiptaaðgerða, þó það væri ekki nema tíma­bund­inn samn­ing­ur?

„Mér finnst það eig­in­lega skrítið. Eins og ég segi, við vær­um í meiri vand­ræðum ef fólk hefði ekki þann kost,“ seg­ir Yngvi.

Hvað mynd­ir þú gera ef þú vær­ir heil­brigðisráðherra?

„Ég myndi fyrst og síðast byggja upp þessa stofn­un sem ég er að vinna hjá. En á meðan finnst mér sá mögu­leiki að semja við Klíník­ina ætti að vera uppi á borði. Sem tíma­bundna lausn. Það eru þúsund manns á biðlista með sín­ar þján­ing­ar. Mér finnst sjálfsagt að reyna að koma þeim til hjálp­ar á ein­hvern hátt.“

Viðtalið í heild er í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert