Raforkuvinnsla á landinu jókst um 591 gígavattstundir (GWh) í fyrra eða um 3,1% milli ára og er aukningin álíka mikil og öll raforkunotkun á Suðurlandi. Um helmingurinn af aukinni raforkuvinnslu fór til gagnavera.
Þessar upplýsingar koma fram í greinargerð Orkuspárnefndar um raforkunotkunina á seinasta ári sem Orkustofnun hefur nú birt og greint er frá í Mmorgunblaðinu í dag. Samanlögð raforkuvinnsla í fyrra var 19.830 GWh.
„Stórnotendur juku notkun sína á síðasta ári og mest var aukningin hjá gagnaverum eða rúmar 300 GWh. Notkun álveranna þriggja minnkaði smávægilega en aðrir stórnotendur juku notkun sína um rúmar 100 GWh mest vegna tilkomu PCC en á móti hætti kísilverið í Helguvík starfsemi fyrir rúmu ári síðan,“ segir m.a. í samantekt um ástæður aukinnar raforkuvinnslu á seinasta ári.
Bent er á það í greinargerðinni að ef litið er yfir lengra tímabil megi merkja áhugaverðar breytingar svo sem að á síðustu tíu árum hefur raforkuvinnsla aukist um 3.363 GWh „sem jafngildir um 80% af raforkunotkun allra heimila og almenns atvinnulífs á landinu að meðtalinni notkun vinnslufyrirtækja.“