Þrátt fyrir að hitatölur séu með besta móti þessa stundina er spáð stormi síðar í dag á Suður- og Vesturlandi. Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Suðausturlandi og á miðhálendinu.
Veðurfræðingur hjá Vegagerðinni biður vegfarendur að vera á varðbergi þar sem hviður geta náð allt að 45 m/s undir Hafnarfjalli frá klukkan 17 og fram yfir miðnætti. Þá er útlit fyrir allt að 35 m/s í hliðarvindi á Reykjanesbraut frá um klukkan 18 í kvöld. Ausandi rigning verður á svæðinu og varasöm skilyrði.
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að versta veðrið, vindlega séð, gangi yfir síðdegis í dag, laugardag, og aðfaranótt sunnudags. Fólk sem er komið í páskafrí og hyggur á ferðalög ætti því að huga sérstaklega vel að veðurspánni, sérstaklega ef stefnan er tekin á hálendið.
Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn eru svohljóðandi:
Vaxandi suðaustanátt í dag, 18-25 m/s síðdegis, en heldur hægari N- og A-til á landinu. Þurrt og bjart veður norðan heiða, annars rigning með köflum. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast á N-landi.
Suðaustan 10-18 og rigning á morgun, einkum SA-lands en áfram þurrt fyrir norðan. Hiti 6 til 13 stig.