Ekki er komin lausn í deilur Vegagerðarinnar og pólsku skipasmíðastöðvarinnar Crist um lokauppgjör vegna smíði nýju Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.
Ferjan bíður fullbúin í Gdansk eftir niðurstöðu málsins. Viðræðunum er stýrt af danskri lögfræðistofu sem sérhæfir sig í málum er snúa að skipasmíðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt upplýsingum G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hafa fulltrúar fyrirtækjanna verið í lauslegum viðræðum. Staðfestir hann að forstjóri Vegagerðarinnar muni eiga fund í Póllandi næsta þriðjudag með fulltrúum skipasmíðastöðvarinnar.