Tækifæri í nýtingu hafsins á sjálfbæran hátt

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á fjölþjóðlegt samstarf, þar …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á fjölþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðaviðskipti, loftslagsmál, mannauð, mannréttinda- og jafnréttismál, í ávarpi sínu í þróunarnefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðins í gær. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Loftslagsbreytingar og mengun í hafi ber að taka alvarlega og vinna þarf gegn þeirri ógn sem stafar af þeim. Þetta er meðal þess sem fram kom í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á fundi þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær.

Í ávarpinu, sem beindist sérstaklega að bláa hagkerfinu, lagði hann áherslu á fjölþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðaviðskipti, loftslagsmál, mannauð, mannréttinda- og jafnréttismállagði. Þá lagði Guðlaugur Þór einnig áherslu á þau tækifæri fyrir smáeyríki sem felast í að nýta auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt. Ráðherra áréttaði þar gildi heildrænnar nálgunar og hnattræns samstarfs allra aðila til að tryggja hagsæld landa byggða á bláa hagkerfinu.

Þá ræddi hann um mikilvægi fjármögnunar þróunar, meðal annars með betri skattheimtu, og að koma í veg fyrir ólöglegt fjármagnsflæði og skattaundanskot. „Í þessu sambandi er líka nauðsynlegt að beina sjónum að skuldastöðu þróunarríkjanna og aðgerðum til að bregðast við henni. Þá er ég sannfærður um að einkageirinn geti gegnt mikilvægu hlutverki við fjármögnun þróunar,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Ísland á sæti í þróunarnefndinni á árinu 2019 og hélt utanríkisráðherra ávarpið fyrir hönd kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Vor­fund­ir Alþjóðabank­ans standa nú yfir og var nýr mann­rétt­inda­sjóður á veg­um Alþjóðabank­ans sett­ur á fót og er Ísland er á meðal stofn­enda sjóðsins. 

Á fundi þróunarnefndarinnar að þessu sinni voru einkum til umræðu innleiðing hlutafjáraukningar Alþjóðabanka til enduruppbyggingar og framþróunar (IBRD) og Alþjóðalánastofnunarinnar (IFC) og sú stefnumörkun sem fylgir henni. Þá var einnig rædd vinna bankans við að samþætta tæknimál í starfseminni og verkefni í þróunarlöndum. Utanríkisráðherra lýsti í ávarpi sínu ánægju yfir framgangi bankans í innleiðingu stefnumörkunarinnar og stuðningi kjördæmisins við starf bankans og áherslur í innleiðingu nýrrar tækni í þróunarmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert