Ástandið verði að batna

Ríkisstjórnin er í herferð gegn sjálfstætt starfandi sérfræðingum, segir Hanna …
Ríkisstjórnin er í herferð gegn sjálfstætt starfandi sérfræðingum, segir Hanna Katrín í Morgunblaðinu í dag, en um þúsund manns bíða eftir liðskiptaaðgerð. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við höfum ekki náð nægilega góðum árangri þrátt fyrir að umtalsvert fjármagn hafi verið sett í þetta. Það er áhyggjuefni,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um þann vanda sem upp er kominn í heilbrigðiskerfinu vegna biðlista eftir liðskiptaaðgerðum á hné og mjöðm.

Hún segir ástandið vissulega ekki viðunandi, það verði að batna og unnið sé að lausnum í málum. Mun Svandís eiga fundi um þetta með stjórnendum Landspítalans.

Greint var frá því í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins að um þúsund manns bíði nú eftir aðgerð. „Það er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að ríkið sé í ákveðinni herferð gegn sjálfstætt starfandi sérfræðingum í heilbrigðisgeiranum,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd Alþingis.

Lögum samkvæmt greiðir ríkið fyrir aðgerð erlendis ef sjúklingar bíða lengur en í þrjá mánuði eftir aðgerð. Ríkið greiðir hins vegar ekki fyrir aðgerðir sem framkvæmdar eru á einkasjúkrahúsi hérlendis, Klíníkinni, þrátt fyrir að slíkt sé talsvert ódýrara. „Mér finnst algjörlega útilokað að standa svona að málum. Heilbrigðisráðherra verður auðvitað að skýra af hverju hún vill eyða tvöfaldri upphæð erlendis fremur en að framkvæma aðgerðirnar hér heima. Þetta er í hennar höndum,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og 2. varaformaður velferðarnefndar.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar og nefndarmaður í velferðarnefnd, tekur í svipaðan streng. „Þetta er virkilega vond staða sem kallar á að auknir fjármunir séu settir í málaflokkinn. Það þarf að styrkja opinbera heilbrigðisþjónustu,“ segir Guðjón í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert