Yfirskattanefnd hefur fallist á kröfu einstaklings um að hann fái að ráðstafa séreignarsparnaði vegna kaupa á sinni fyrstu íbúð. Hann átti 85% í íbúðinni en foreldrar hans keyptu 7,5% hvort.
Ríkisskattstjóri hafnaði umsókn einstaklingsins um ráðstöfun séreignasparnaðarins vegna þess að kaupendur að íbúðinni voru fleiri en tveir.
Íbúðin var keypt árið 2017 og var málið kært til yfirskattanefndar í nóvember í fyrra, um þremur mánuðum eftir að ríkisskattstjóri hafnaði umsókninni.
Yfirskattanefnd rakti í úrskurði sínum breytingar sem hefðu orðið á frumvarpi til laga nr. 111/2016 í meðförum Alþingis og taldi ekkert benda til þess að með breytingum á orðalagi laganna hefði verið stefnt að því að þrengja möguleika kaupanda fyrstu íbúðar til að ráðstafa séreignarsparnaði sínum frá því sem var orðað í frumvarpstexta, þar á meðal við þær aðstæður sem greindi í máli kæranda, svo framarlega sem skilyrði um 30% lágmarkseignarhlut væri uppfyllt.
Krafa kæranda var því tekin til greina.