Alls sótti 1.441 einstaklingur um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun dagana 28. mars, þegar WOW air fór í þrot, og fram til 8. apríl. Af þessum hópi eru 740 fyrrverandi starfsmenn WOW air. Þetta kemur fram í nýbirtu yfirliti Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaði.
Af þessum 740 einstaklingum sem unnu hjá WOW air búa 610 á höfuðborgarsvæðinu, 108 á Suðurnesjum og 22 á öðrum svæðum.
Skráð atvinnuleysi í mars mældist 3,2%. Áhrifa WOW air gætir þó aðeins að litlu leyti í þeirri tölu þar sem reksturinn stöðvaðist undir lok mánaðarins. Fjölgun nýskráninga á atvinnuleysisskrá mun hins vegar sýna sig með afgerandi hætti í apríltölunum og gerir Vinnumálastofnun nú ráð fyrir að skráð atvinnuleysi muni aukast í apríl og verða á bilinu 3,3- 3,6%.
Þessi aukning er þvert á venjuna á þessum árstíma, því atvinnuleysi hefur nánast alltaf minnkað milli mars og apríl síðustu 30 ár, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.