Átvr seldi áfengi og tóbak auk sölu umbúða fyrir tæpa 35,3 milljarða kr. í fyrra og nam hagnaður ársins um 1.111 milljónum króna. Það er nokkru minni hagnaður en á árinu á undan þegar hann var 1.367 milljónir kr. Heildarveltan á síðasta ári var rúmlega 45 milljarðar.
Ríkissjóður naut góðs af starfseminni í auknum tekjum af áfengis- og tóbaksgjöldum, arðgreiðslu og virðisaukaskatti. Alls fékk ríkið í sinn hlut rúmlega 25,1 milljarð af brúttósölu ÁTVR í fyrra. Þar af fékk ríkissjóður einn milljarð kr. í arð.
Þessar upplýsingar koma fram í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR. Eins og fram hefur komið seldust tæpar 22 milljónir lítra af áfengi í Vínbúðunum í fyrra sem er örlítil aukning frá 2017. En aðsóknin hefur sjaldan eða aldrei verið meiri; viðskiptavinirnir voru rúmlega fimm milljónir talsins yfir árið. ÁTVR rekur 51 áfengisverslun auk vefverslunar og þar var í nógu að snúast.
„Þegar mest var að gera komu 611 viðskiptavinir í Vínbúðina Skeifunni á einum klukkutíma. Það gerir um 10 viðskiptavini á mínútu. Í versluninni eru fimm afgreiðslukassar og þennan klukkutíma tók það að meðaltali þrjátíu sekúndur að afgreiða hvern viðskiptavin á kassa. Það þýðir að á sex sekúndna fresti er einn viðskiptavinur afgreiddur í gegnum búðina. Líklega er þetta einn mesti afgreiðsluhraði sem þekkist í smásölurekstri. Ljóst er að allt þarf að ganga upp til þess að þetta sé hægt. Starfsfólkið, afgreiðslukerfin, bílastæði og umferðarflæði. Þrátt fyrir lengdan afgreiðslutíma á undanförnum árum kjósa margir að gera áfengisinnkaup sín milli klukkan fimm og sjö á föstudögum,“ segir Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, í ársskýrslunni, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.