Fundu örplast í Pýreneafjöllum

Pýreneafjöllinn eru á landamærum Spánar og Frakklands.
Pýreneafjöllinn eru á landamærum Spánar og Frakklands. Ljósmynd/Google maps

Vísindamenn hafa nú komist að því að afskekkt svæði í Pýreneafjöllum, sem áður voru talinn ósnortnar auðnir, eru þaktar örplastsögnum sem talið er að vindurinn hafi borið með sér.

BBC segir teymi vísindamanna frá háskólunum í Strathclyde í Skotlandi og Toulouse í Frakklandi hafa dvalið við rannsóknir á svæðinu, sem er á landamærum Spánar og Frakklands, yfir um fimm mánaðaskeið.

Er það mat vísindamannanna eftir þá dvöl að um 365 örplastsagnir eða –trefjar falli þar dag hvern niður á hvern fermetra lands. Næsta stórborg Toulouse er í um 120 km fjarlægð.

Söfnuðu vísindamennirnir sýnum af svæðum sem þeir töldu vera ómenguð og voru í um 6,5 km fjarlægð frá næsta þorpi. Sýnin voru því næst rannsökuð með mælitækjum sem greindu hvort örplastsagnir, sem eru smærri en 5 mm langar og því minni en svo að augað geti numið þær, væri að finna í fjallgarðinum.

Ekki er vitað hversu langt örplastsagnir geta borist, en samkvæmt rannsókninni sem var birt í fagtímaritinu Nature Geoscience Journal er talið að þær berist reglulega allt að 100 km leið.

Steve Allen, einn vísindamannanna frá háskólanum í Strathclyde, sagði rannsóknina gefa til kynna að vindurinn beri örplastið. „Það er stórfurðulegt, en um leið áhyggjuefni að svo margar agnir hafi fundist á Pýreneasvæðinu,“ sagði Allen.

 „Það opnar á þann möguleika að við séum ekki bara að anda því að okkur í borgum, heldur geti það ferðast töluverða leið frá upprunastað sínum. Plastrusl er í síauknum mæli alþjóðlegt vandamál og ein helsta umhverfisáskorun sem við stöndum frammi fyrir á hnattræna vísu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert