Ökumaður og þrír farþegar sluppu ómeiddir þegar húsbíll fauk út af veginum á Reykjanesbraut, milli Vallahverfis í Hafnarfirði og álversins í Straumsvík.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út klukkan 12:20 og voru sjúkrabíll og dælubíll sendir á staðinn. Töluverðar tafir voru á meðan verið var að draga bílinn upp á veginn en aðgerðum er lokið að sögn varðstjóra.
Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu og hefur vindhraði á Reykjanesbraut mest farið upp í 32 metra á sekúndu. Spáð er hvassviðri eða stormi eftir því sem líða fer á daginn.