Ræsa fram vatn og þurrka stiga

Göngustígar að Dettifossi eru ófærir.
Göngustígar að Dettifossi eru ófærir. Ljósmynd/Vatnajökulsþjóðgarður

„Það er enn þá allt á floti og drulla. Við erum að grafa skurði og reyna að ræsa fram vatn svo stigarnir þorni hraðar,“ segir Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði. Ófært er að Dettifossi vegna leysingavatns og er áfram lokað fyrir umferð að fossinum í dag líkt og í gær.

Landvörður stendur vaktina við þjóðveginn með lokunarpóst sem er um 25 kílómetra frá Dettifossi. Það gekk vel í gær og reiknar Guðmundur ekki með öðru en að það gangi vel líka í dag. 

Unnið er að því að greiða leið vatnsins um svæðið svo unnt sé að opna inn á svæðið sem fyrst. Leysingavatnið hefur ekki unnið neinar skemmdir á svæðinu þótt göngustígar og stigar séu umluktir vatni og drullu. Hins vegar hefur ásýnd svæðisins breyst lítillega en nýr 30 metra foss steypist fram af klettabelti skammt frá Dettifossi.  

Guðmundur telur líklegt að margir vilji leggja leið sína að Dettifossi yfir páskana eins og síðustu ár. Skoðað verður í fyrramálið hvort hægt verði að opna fyrir umferð.    

Margir vilja leggja leið sína að Dettifossi.
Margir vilja leggja leið sína að Dettifossi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert