Viðkvæmni fyrir eldvörnum í eldri húsum

Frá eldsvoðanum í Notre Dame í gær.
Frá eldsvoðanum í Notre Dame í gær. AFP

„Þetta er náttúrulega alveg skelfilegt,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is um eldsvoðann í gær sem olli miklum skemmdum á dómkirkjunni Notre Dame í París, höfuðborg Frakklands.

„Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig þetta var í þessu tilfelli en það sem hefur verið ákveðin viðkvæmni stundum gagnvart því að setja inn nútímaeldvarnir í eldri byggingar,“ segir Jón Viðar spurður um eldvarnir í gömlum byggingum. Það hafi hins vegar verið að breytast nokkuð á síðustu árum. Meðal annars vegna þess að slíkur búnaður hafi verið að þróast og sé orðinn nettari en áður og komin meiri fjölbreytni í eldvarnarkerfum.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Aðsend

„Síðan hefur maður líka séð eldri byggingar þar sem skrefið hefur verið stigið til fulls,“ segir Jón Viðar. Misjafnt sé auðvitað hvernig fólk upplifi slíkt sjónrænt. „Það er hins vegar rétt að undirstrika mikilvægi þess að ekkert sé til sparað varðandi nútíma eldvarnir þó byggingar séu eldri.“ Vel megi vera að það hafi verið til fyrirmyndar í Notre Dame.

Hins vegar sé einnig mikilvægt að hafa í huga þegar byggingar séu á endurbyggingar- og viðhaldsstigi að þá komi til ákveðnar hættur sem menn þurfi að vera meðvitaðir um. Fram hafi komið vangaveltur í fjölmiðlum um að viðgerðir sem staðið hafi yfir á Notre Dame kunni hugsanlega að tengjast upptökum eldsins í kirkjunni. Það eigi þó eftir að koma í ljós.

„Slíkt er hins vegar því miður mjög algengt. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt þegar um er að ræða nýbyggingar eða endurbætur á eldri byggingum að menn séu mjög meðvitaðir um þennan þátt,“ segir Jón Viðar. Þó aldrei verði hægt að koma algerlega í veg fyrir eldsvoða eins og í Notre Dame sé hægt að gera ýmislegt til að draga úr líkunum.

„Þar með einnig kannski minnka líkurnar á því tjóni sem getur orðið. Síðan verður að hrósa þeim sem komu að málum í Notre Dame fyrir að taka ákvarðanir um að hefja verðmætabjörgun á fyrstu stigum slökkvistarfs sem er algerlega til fyrirmyndar sem er hreinlega ekki hægt að bæta. En það var átakanlegt að fylgjast með þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert