„Ég tel ráðherra vera að vinna mjög gott verk í þessum málum. Við viljum hafa góða blöndu af ríkisrekstri og sérfræðirekstri og á þeim nótum hefur ráðherrann einnig talað.“
Þetta segir Willum Þór Þórsson, formaður þingflokks Framsóknarflokks, og vísar í máli sínu til heilbrigðisráðherra, en í Morgunblaðinu sl. daga hefur verið fjallað um liðskiptaaðgerðir og þá fjölmörgu sem bíða á biðlistum eftir slíkri aðgerð.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði sl. mánudag að ríkisstjórnin væri í herferð gegn sjálfstætt starfandi sérfræðingum og var þá m.a. vísað til þess hve margir Íslendingar halda utan í aðgerðir. Willum Þór segist ekki kannast við slíka herferð. „Við viljum auðvitað að fólk fái bót meina sinna hér heima á Íslandi.“
Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks, segir enga almenna umræðu vera um þetta mál í þingflokknum. „Meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur þó auðvitað kraumað einhver óánægja út af þessu, en það er í sjálfu sér ekkert nýtt.“