Ákærður fyrir smygl á fólki

Ákæra á hendur manninum var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í …
Ákæra á hendur manninum var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. mbl.is/Ófeigur

Erlendur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að smygla sjö venesúelskum ríkisborgurum til landsins í byrjun þessa árs. Ákæra á hendur manninum var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Maðurinn, sem er frá Palestínu en búsettur í Svíþjóð, var fyrst um sinn grunaður um mansal en er ekki ákærður fyrir það. RÚV hefur eftir Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðstoðarsaksóknara að erfitt hafi reynst að sanna slíkt, það er mansal.

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan mars. Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum sem staðfestur var á föstudag er manninum gefið að sök að hafa staðið að skipulagðri starfsemi við að aðstoða útlendinga að koma ólöglega hingað til lans. Brotin sem maður­inn er grunaður um að hafa framið eða tekið þátt í að fremja varða allt að sex ára fang­elsi. Mat lög­reglu er að ásetn­ing­ur kærða sé „mik­ill og ein­beitt­ur“ í mál­inu.

Í úrskurðinum kemur einnig fram að í þessum sjö manna hópi væru tvö systkini sem væru fórnarlamb mansals og að þau gætu því verið í viðkvæmri stöðu. Maðurinn er hins vegar ekki ákærður fyrir mansal, heldur smygl, líkt og fram kemur í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Maðurinn neitaði sök­ við yf­ir­heyrsl­ur, en ætluð kær­asta hans hef­ur þó sagt að þau reki ferðaskrif­stofu. Kannaðist maðurinn ekki við það.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert