„Sú staða sem við kaupmenn horfum nú fram á í miðbænum – mér líst ekkert á hana,“ segir Gilbert Ó. Guðjónsson, úrsmiður við Laugaveg.
Margir kaupmenn við Laugaveg eru uggandi yfir þeim áformum borgaryfirvalda að breyta götunni í göngugötu til frambúðar. Gilbert segir að auð verslunarpláss á Laugavegi séu nú 16 og fleiri kaupmenn séu á förum. „Ég myndi kalla þessa þróun hryðjuverk, það er ekkert hlustað á okkur hjá borginni.“
Fleiri kaupmenn taka undir sjónarmið Gilberts og kvarta undan framgöngu borgarinnar. „Ef viðskiptavinir okkar geta ekki nálgast verslunina fyrir þrengingum og lokunum þá höfum við ekkert með verslun á þessum stað að gera,“ segir Jón Sigurjónsson gullsmíðameistari. „Fólk er orðlaust yfir þróuninni. Þetta er rosalega sorglegt allt saman,“ segir Vigdís Guðmundsdóttir í umfjöllun um flóttann af Laugavegi í Morgunblaðinu í dag.