Grunaður um stórfelld fíkniefnabrot

Á báðum stöðum hafði verið tengt fram hjá rafmagni með …
Á báðum stöðum hafði verið tengt fram hjá rafmagni með sambærilegum hætti. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að erlendur ríkisborgari, sem grunaður er um ræktun kannabisplantna, peningaþvætti og þjófnað á rafmagni, sæti farbanni fram til 10. maí.

Í úrskurði héraðsdóms frá 12. apríl, sem Landsréttur staðfesti í gær, kemur fram að við leit lögreglu í sumarhúsi, þar sem maðurinn var handtekinn, hafi komið í ljós sérútbúin ræktunaraðstaða fyrir kannabisplöntur í fimm rýmum hússins og einnig í hjólhýsi á lóðinni.

Lögregla hafi enn fremur lagt hald á mikið magn kannabisplantna, græðlinga, stöngla og laufa, auk búnaðar til ræktunar, en í farbannskröfu lögreglustjórans á Suðurlandi segir að til rannsóknar séu meðal annars ætluð stórfelld brot mannsins á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni.

Auk mannsins var annar maður handtekinn á vettvangi, en hann var með í fórum sínum mikið reiðufé sem lagt var hald á. Einnig var gerð húsleit í nærliggjandi sumarhúsi þar sem handtekinn var þriðji maðurinn. Fannst sams konar ræktun þar að því er segir í úrskurði dómstólsins.

Á báðum stöðum hafði verið tengt fram hjá rafmagni með sambærilegum hætti. Því telur lögregla ástæðu til að ætla að sömu aðilar hafi staðið að ræktun og þjófnaði á rafmagni á báðum stöðum.

Hefur hún sömuleiðis sterkan grun um að maðurinn sem nú er í farbanni tengist báðum framangreindum fíkniefnaræktunum, sölu/dreifingu fíkniefna, peningaþvætti og þjófnaði á rafmagni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert