Óska eftir mati MAST á kröfu um sóttkví

Blindrahundur. Mynd úr safni.
Blindrahundur. Mynd úr safni.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur óskað eftir mati Matvælastofnunar á því hvort MAST telji að mögulegt sé að slaka á kröfum um sóttkví fyrir hjálparhunda fyrir blinda, og þá með hvaða skilyrðum og hvort MAST telji að hægt sé að stytta almenna kröfu um sóttkví fyrir alla hunda, og eftir atvikum ketti, og þá með hvaða hætti það sé gerlegt.

Dr. Preben Willeberg, fyrrverandi yfirdýralæknir Danmerkur, skilaði fyrir skömmu skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um áhættumat vegna innflutnings hunda og katta til Íslands með sérstakri áherslu á hjálparhunda. Haustið 2017 fól þáver­andi sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, dr. Wil­le­berg að vinna áhættumatið.

Í svörum MAST við fyrirspurn mbl.is segir að Matvælastofnun muni í svörum sínum til ráðuneytisins m.a. byggja skýrslu Willeberg. Nauðsynlegt sé þó að líta til fleiri þátta, s.s. reynslu af íslenska kerfinu frá 2003, reynslu annarra landa og öðrum mögulegum mótvægisaðgerðum.

Í skýrslu Willeberg eru 54 sjúkdómar og sýkingar metin með tilliti til þeirrar hættu að þeir berist til Íslands með innflutningi hunda og katta. Þá er í skýrslunni fjallað sérstaklega um innflutning hjálparhunda, þ.e. sérþjálfaða leiðsögu- eða hjálparhunda sem aðstoða blinda eða fatlaða einstaklinga og kemst Willeberg að þeirri niðurstöðu að minni áhætta fylgi innflutningi hjálparhunda en annarra hunda.

Willeberg  tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvort hægt sé að stytta sóttkví fyrir aðra hunda og ketti vegna innflutnings til Íslands, né heldur til hvaða mótvægisaðgerða þyrfti að grípa til að lágmarka áhættuna á smiti.

Segir MAST í svörum sínum að tíma taki að leggja mat á gögnin, en að stofnunin telji sig geta svarað erindi ráðuneytis undir lok maímánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert