Aftur er búið að loka fyrir umferð að Dettifossi og nú vegna asahláku á svæðinu. Greint var frá því í morgun að búið væri að opna fyrir umferð um Dettifossveg frá Þjóðvegi 1 og norður að fossinum, en lokað hafði verið frá því á mánudag.
Á Facebook-síðu Vatnajökulsþjóðgarðs var síðan greint frá því fyrir skemmstu að lokað hefði verið fyrir umferð á ný vegna asahláku og að miðað við veðurspá þá væri ólíklegt að opnað yrði aftur inn á svæðið á morgun. „En við stöndum vaktina og látum vita um leið og eitthvað breytist,“ segir í færslunni.
Greint var frá því á mánudag að gripið hefði verið til skyndilokunnar við Dettifoss vegna mikils leysingavatns á svæðinu. Vatn var þá farið að flæða yfir veg 862 áleiðis að fossinum og um Sanddal rann á undir snjónum sem er alla jafna ekki til staðar.
Leysingavatnið breytti ásýnd svæðisins gríðarlega myndaðist til að mynda nýr 30 metra hár foss á svæði, sem er alla jafna alveg þurrt. Sagði Guðmundu Ögmundsson þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðar í samtali við mbl.is að þessar aðstæður skapist á nokkurra ára fresti.