„Það er frábær stemning í bænum og spennan er í hámarki. Ég er búinn að vera hérna síðustu tvær vikurnar og það er búið að vera stemning í bænum allan þennan tíma,“ segir rokkstjóri hátíðarinnar Aldrei fór ég suður, Kristján Freyr Halldórsson, í samtali við mbl.is. Tónlistarhátíðin stendur í tvo daga og hefst annað kvöld.
Hann segir fólk streyma inn á Ísafjörð. „Maður finnur það hversu margir eru að koma nýir og það er búið að vera mikil bílaumferð. Allt í einu fylltist bara allt sem er alveg yndislegt. Það er kominn mikill fjöldi fólks í bæinn.“
Kristján segir erfitt að spá fyrir um fjölda þar sem ekki eru seldir miðar á hátíðina. „Við getum aldrei sagt hversu mörgum við búumst við, en í fyrra þá fór þetta fram úr öllum væntingum og við sprengdum alla skala í aðsókn hingað Vestur. Þá komu um 1.500 bílar og um fimm þúsund manns sem höfðu lagt leið sína hingað og það búa innan við fjögur þúsund í Ísafjarðarbæ.“
Rokkstjórinn er ekki tilbúinn að leggja mat á það hvort fyrri met verði slegin í ár. „Ég bara vona að fólki líki prógrammið hjá okkur og leggi leið sína hingað til okkar. Við rennum alltaf blint í sjóinn og höfum alltaf haft smá áhyggjur af því að vera að brenna inni í stemningu, en þetta er fimmtánda árið okkar og eins og síðasta árið sýndi hefur bara verið að bæta í.“
Hátíðin hefur orðið það stór að það hafa orðið til fjölbreyttir hliðarviðburðir í nágrenni Ísafjarðar. „Það er bara bullandi menning í hverjum firði,“ segir Kristján. „Það eru allskonar viðburðir út um allt, kajak róður, siglingar, fjallaklifur og fleira. Þetta er bara æðislegt,“ bætir hann við.