Lögregla var kölluð að barnum Gullöldinni í Grafarvogi í gærkvöldi. Þar hafði kona verið ósátt við störf bingóstjóra kvöldsins og sakað hann um svindl. Þá kom önnur kona bingóstjóranum til varnar og fannst að honum vegið, en var hún þá slegin í andlitið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Páskahelgin byrjar að öðru leyti vel og var nóttin hin rólegasta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt því sem fram kemur í samantekt lögreglu á verkefnum næturinnar.
Voru 9 teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna og voru 4 af þeim sviptir ökuréttindum og 3 án ökuréttinda. Þá voru einnig 2 með fíkniefni í fórum sínum.