Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hjá Circle Air á Akureyri, sem býður upp á útsýnisflug og leiguflug um land allt á flugvélum og þyrlum, segir að bókanir í ár líti vel út, þrátt fyrir áberandi tal um samdrátt í ferðaþjónustu.
„Það er nóg af bölmóði og leiðindum og því ánægjulegt að segja frá því að það lítur ágætlega út með bókanir í sumar hjá Circle Air. Það er ekki síst því að þakka að það er áberandi mikil fjölgun skemmtiferðaskipafarþega á landinu öllu, sem sumir hverjir hafa pantað fram til 2021. Það munu til dæmis 175 þúsund manns koma til Akureyrar með skemmtiferðaskipum nú í ár og það munar um minna,“ segir Þorvaldur Lúðvík í samtali við Morgunblaðið.
Circle Air er einnig með starfsemi í Reykjavík. „Við verðum bæði á Akureyri og í Reykjavík í sumar,“ segir hann en Circle Air er samstarfsaðili austurríska þyrlufyrirtækisins Heli Austria á Íslandi.