Byggðar verða 50-60 íbúðir við Sjómannaskólann segir í lóðarvilyrði sem borgarstjóri Reykjavíkur undirritaði síðasta mánudag við félagið Vaxtarhús ehf. Þar kemur fram að íbúðirnar á svæðinu skuli flokkast sem „hagkvæmt húsnæði“, sem ungt fólk og fyrstu kaupendur hafa forgang að kaupum á.
Þeim forgangi er þannig háttað að hann gildir í þrjár vikur frá því að eignin er auglýst fyrst í fjölmiðli. Að þeim þremur viknum liðnum má verktakinn selja hana á almennum markaði.
„Við setjum stórt spurningarmerki við það að ungt fólk komi yfirleitt til með að kaupa þessar íbúðir,“ segir Helgi Hilmarsson, grafískur hönnuður og talsmaður íbúasamtakanna Vina Saltfiskmóans, sem hafa mótmælt byggingu íbúða á reitnum. Hann bendir á að samkvæmt mati KPMG verði meðalsöluverð á nýjum íbúðum í byggingunni 28,9 milljónir fyrir 40 fermetra íbúð, sem gerir 722.500 kr á fermetrann. Helgi segir að á sama tíma sé meðalfermetraverð í 105 í kringum 400.000, skv. útreikningum á fasteignavef Fréttablaðsins. Því verði þessar nýju íbúðir ekki ódýrari kostur, heldur þvert á móti dýrari en húsnæðið sem fyrir er.
Vinir Saltfiskmóans hafa gagnrýnt áformin frá því síðasta vor, þegar áform borgaryfirvalda um framkvæmdir á reitnum litu dagsins ljós. Gagnrýni hópsins snerist í fyrstu að vanhelgun á fornum minjum, nefnilega í Saltfiskmóanum svonefnda, þar sem verkaður var saltfiskur í upphafi 20. aldar, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgublaðinu í dag.