Eldurinn er slokknaður í Dalshrauni en þar kviknaði fyrr í dag eldur á efri hæð í íbúðarhúsnæði. Á neðri hæð húsnæðisins er iðnaðarhúsnæði, geymslur og slíkt. Ekki liggur fyrir hvort umrætt húsnæði, þar sem eldurinn kviknaði, er viðurkennt íbúðarhúsnæði eða ekki.
Íbúunum hefur verið komið fyrir í strætisvagni á svæðinu og bíða þess að Rauði krossinn finni fyrir þau húsnæði til að gista í í nótt. Allir íbúarnir eru af erlendum uppruna. Ekki er möguleiki á að menn fái að fara aftur heim til sín í bili, enda skaðinn töluverður á húsnæðinu. Eldurinn var mikill.
Vernharð Guðnason, deildarstjóri aðgerða hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að eldurinn hafi verið töluverður en að gæfan sé að engan hafi skaðað. Unnið sé að verðmætabjörgun á neðri hæðum hússins.
Íbúðirnar eru á efri hæð í því sem virðist vera iðnaðarhúsnæði á neðri hæðunum. Fjórum þurfti að bjarga af brunaútgangssvölum. Reykkafarar slökkviliðsins fóru þá inn í húsnæðið til að slökkva eldinn innan frá.
Enn er mikill aðbúnaður á svæðinu á meðan verið er að leita af sér grun um að enn logi glæður. Mikil rigning er á svæðinu. Umrætt húsnæði er í þeim hluta Dalshrauns sem hefur heimilisföngin 13-26. Húsasmiðjan er með geymslur í kjallara hússins sem brann en gengið virðist hafa verið úr skugga um að þar hafi orðið skaði.
Talsmenn Rauða krossins sögðu við mbl.is að unnið væri að því að finna lausnir á gistingu fyrir fólkið. Um sinn er það í strætisvagninum og bíður. Þar fær það einnig sálræna aðstoð og svör við spurningum sínum.