Allt tiltækt slökkvilið hefur verið kallað út vegna elds sem logar í íbúð í Dalshrauni í Hafnarfirði skammt frá verslun Húsasmiðjunnar. Að sögn varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðsins var töluverður eldur þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn.
Búið er að loka nærliggjandi götum á meðan aðgerðirnar standa yfir.
Að sögn varðstjóra SHS hefur engan sakað, en slökkviliðsmenn komu fólki til aðstoðar sem náði að komast út á svalir þar sem það beið eftir aðstoð.
Þá er búið að rýma nærliggjandi íbúðir. Talsvert slökkvistarf er framundan.
Uppfært kl. 17:05
Aðgerðir standa enn yfir en menn eru farnir að sjá fyrir endann á slökkvistarfinu. Verið er að slökkva í glæðum og þá er unnið að reyklosun. Að sögn varðstjóra fóru reykkafararinn í húsnæðið til að athuga hvort fólk leyndist inni. Svo reyndist ekki vera. Aðgerðin var umfangsmikil og var viðbótarmannskapur kallaður út til að sinna verkefninu. Svo virðist vera sem að eldurinn hafi verið staðbundinn við eina íbúð á efri hæð hússins. Talsverður eldsmatur virðist hafa verið í íbúðunni miðað því það skíðlogaði í henni þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn.
Þá kom viðbragðshópur á vegum Rauða krossins á staðinn, en hann er með strætisvagn sem íbúar gátu verið í á meðan slökkvistarf er í gangi.
Eldsupptök eru ókunn.