Eldsupptökin í brunanum í fjölbýli í Dalshrauni í dag virðast hafa verið í herbergi erlends pars á þrítugsaldri. Tekin var skýrsla af karlinum, sem var einn heima þegar eldurinn varð. Talað var við hann sem vitni en ekki grunaðan.
Það voru um 20 manns heima í byggingunni í dag þegar eldurinn varð. Um er að ræða 25 herbergi á efri hæð byggingar þar sem á neðri hæð er atvinnuhúsnæði. Allir íbúarnir eru af erlendum uppruna.
Sagt var frá því fyrr í dag að tveir væru í haldi lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna. Svo er ekki. „Það er væntanlega bara misskilningur,“ segir Skúli Jónsson, aðstöðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði. Hann segir engan hafa verið handtekinn vegna málsins heldur aðeins hafi verið tekin skýrsla af umræddum manni.
Enginn liggur undir gruni um að hafa valdið brunanum. Enn á eftir að afhenda vettvang lögreglu en þar er slökkvilið enn að störfum, þó eldurinn sé slokknaður. Skúli segir ótímabært að álykta nokkuð um hvað kann að hafa valdið eldinum.