Bjór á Íslandi er sá fjórði dýrasti í heimi. Hér kostar stór bjór að meðaltali 1.258 krónur, andvirði 8,03 sterlingspunda.
Þetta segir í nýrri skýrslu ensks ferðavefjar, MyBaggage, sem gerir árlegan verðsamanburð á bjór meðal þjóða heimsins.
Í könnuninni er talað um pint, sem er tæpur hálfur lítri. Aðeins þrjú lönd slá Íslendinga út. Katar hefur forystu í heiminum um hátt bjórverð, 1.484 krónur pintið. Þar verður heimsmeistaramótið í knattspyrnu haldið eftir þrjú ár. Svo eru Norðmenn í öðru sæti en þar kostar bjórinn 1.348 krónur. Þá eru nágrannar Katarmanna í austri hjá Sameinuðu arabísku furstadæmunum í þriðja sæti og þar kostar bjórinn 1.288 krónur.
Ódýrasta bjór í heimi er að finna í Víetnam, pintið á 116 krónur.