„Mér finnst ósmekklegt að setja þetta fram með þessum hætti. Þegar ríki og sveitarfélög setja inn í samninga að þau ætli að halda aftur af sér í verðhækkunum er skrýtið að fyrirtæki á almenna markaðnum ætli að vaða á undan,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, um fyrirætlaðar verðhækkanir ÍSAM.
Fréttablaðið greinir frá því að ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, ORA, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna, boði hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna verði kjarasamningar samþykktir.
Björn segir að sambandinu hafi borist tilkynningar um fleiri hækkanir. Til að mynda ætli Brauðgerð Kristjáns Jónssonar á Akureyri að hækka verð um 6,2% um mánaðamótin.
„Mér finnst eins og fyrirtæki innan Samtak atvinnulífsins séu að hvetja til þess að kjarasamningarnir séu felldir. Það er eins og það sé ákveðinn klofningur innan samtakanna.“
Formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, segir í samtali við mbl.is að samtökin harmi allar verðhækkanir. „Eins og fleiri þá vonuðumst við til þess að launahækkanirnar yrðu skynsamlegar og þyrftu ekki að hafa áhrif á verðlag.“
Aðspurður hvort Neytendasamtökunum þættu kjarasamningarnir óskynsamlegir sagði Breki samtökin ekki taka afstöðu í kjaramálum. „Þetta er hluti af kjarabaráttu sem Neytendasamtökin taka ekki afstöðu til en þetta er óneitanlega sérkennilegt.“