„Þetta er algerlega fjarstæðukennd túlkun. Björn er grandvar maður og ef rétt er haft eftir honum þá þykja mér þessi ummæli einkennileg,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um ummæli Björns Snæbjörnssonar, formanns Starfsgreinasambandsins, þess efnis að klofningur virðist vera innan SA.
„Það að eitt fyrirtæki boði verðhækknir getur tæpast verið merki um það sem lýst er í þessari tilvitnun,“ segir Halldór Benjamín í samtali við mbl.is.
„Hins vegar er það alveg ljóst að verðhækkanir ofan í nýgerða kjarasamninga er ekki eitthvað sem Samtök atvinnulífsins geta unað við. Þessir kjarasamningar eru ábyrgir að öllu leyti og það þurfa allir að leggjast á árarnar til að framkalla þau áhrif sem lagt var upp með í kjarasamningunum, að standa vörð um kaupmátt og skapa hér skilyrði til lækkunar vaxta til frambúðar sem er mesta hagsmunamál heima og fyrirtækja í landinu.“