Slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins í Dalshrauni á sjötta tímanum, eftir að hafa bjargað fjórum af þaki hússins á meðan logaði. Enginn liggur undir grun vegna brunans.
Sagt var frá því í kvöldfréttum RÚV að tvennt væri í haldi lögreglu vegna brunans. Svo var ekki, heldur var tekin skýrsla af íbúa.
Slökkviliðið er nú að ljúka störfum á vettvangi. Það verður svo með vakt áfram á staðnum næstu klukkustundir til öryggis en afhendir svo vettvanginn lögreglu, sem rannsakar staðinn þá.
Engan skaðaði í brunanum en á fimmta tug manns bjó á efri hæðinni. Allt fólkið var af erlendum uppruna og það gistir í húsnæði sem Rauði krossinn útvegar þeim í kvöld. Útkallið barst á fjórða tímanum í dag.
Bruninn varð aðeins í íbúðarhúsnæði og eldurinn náði ekki að teygja sig niður á neðri hæð hússins, þar sem er atvinnustarfsemi. Þó var vatn farið að leka inn í húsnæði Húsasmiðjunnar, sem liggur við bygginguna, og þurfti slökkviliðið að brjóta sér leið inn í verslunina til þess að bregðast við því.
Uppfært kl. 20.30
Upphaflega var sagt að tveir væru í haldi lögreglu en lögreglan hefur síðan sagt að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins, heldur var um skýrslutöku að ræða. Viðkomandi var álitinn vitni og lá ekki undir grun.