Sóknarnefnd Dómkirkjunnar hefur með bréfi Ragnars Aðalsteinssonar hrl. til ríkissaksóknara lagt fram kæru á hendur þeim sem hafa veitt leyfi fyrir framkvæmdum í Víkurkirkjugarði og forsvarsmönnum framkvæmdaraðila, Lindarvatns ehf., fyrir að hafa raskað grafarhelgi.
Brotin sem þessir aðilar eru sakaðir um að hafa framið geta haft í för með sér sektir og allt að sex mánaða fangelsisdóm, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur í kærunni, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, að sóknarnefndin telur ljóst að forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar og Lindarvatns hafi verið kunnugt um að verið væri að brjóta lög. Er meðal annars sagt að skipulagsyfirvöldum borgarinnar hafi verið kunnugt um að austurmörk kirkjugarðsins hafi ekki verið við hlið Landssímahússins. Þá er talið að óheimilt sé að raska kirkjugörðum og gröfum á grundvelli ákvæðis laga um kirkjugarða um friðhelgi kirkjugarða og grafreita. Jafnframt er talið að takmarkanir sem settar voru við framkvæmdum með samkomulagi árið 1966 séu enn í gildi.